„Mín skoðun er sú að við settum ekki varnarleikinn efst í forgangsröðunina í þessum leik. Það eru ekki 11 menn inni á vellinum sem ætla sér að halda markinu hreinu. Mér finnst að öll fótboltalið eigi að reyna að halda núlli og því betur sem lið geta gert það því meira geta þau sótt,“ sagði Kristján Örn Sigurðsson varnarmaður íslenska landsliðsins eftir 4:2 tap liðsins gegn Lettum í dag.
„Ef maður miðar leikinn í dag við leikina gegn Spáni og Norður - Írum þá er munurinn sá að við vorum allir að vinna saman í þeim leikjum í vörninni. Og þegar við unnum boltann þá vorum við í góðri stöðu til þess að sækja. Það gerðist ekki oft í dag að við vorum að vinna boltann af Lettunum á góðum stað á vellinum.“ Kristján sagði að hann hefði átt stóran þátt í að Letta skoruðu fjórða markið eftir aðeins 17 sekúndur í síðari hálfleik.
„Ég ætlaði að skalla boltann frá markinu en það fór ekki eins og ég vildi hafa það,“ sagði Kristján Örn en hann fékk gult spjald í leiknum.