Laun knattspyrnumanna í atvinnumennsku eru misjöfn og þeir allra bestu í íþróttinni þéna ævintýralega háar fjárhæðir. Íslenskir atvinnumenn eru margir með góð laun og Eiður Smári Guðjohnsen leikmaður Barcelona á Spáni er þar í sérflokki. Laun knattspyrnumanna í Noregi eru einnig misjöfn en þar er Árni Gautur Arason, markvörður Vålerenga, tekjuhæstur en árslaun hans eru aðeins 67% af vikulaunum fyrirliða Chelsea, John Terry. Og árslaun Kristjáns Sigurðssonar hjá Brann eru helmingi lægri en vikulaun Terrys.
Í Noregi eru laun allra sem greiða skatt birt á netinu og þar kemur í ljós að Árni Gautur Arason, markvörður Vålerenga í Ósló og íslenska landsliðsins, er með hæstu launin af íslensku leikmönnunum. Árni fékk um 11,1 milljón kr. í árslaun á síðasta ári, sem er aðeins 67% af vikulaunum John Terry. Árni hefur lækkað talsvert í launum frá þeim tíma er hann var leikmaður Rosenborg í Þrándheimi en þar var hann með um 17,5 milljónir kr. í árslaun.
Terry er með 16,6 milljónir kr. á viku og er hann launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar en Kristján er með 7,9 milljónir kr. á ári hjá Brann.
Nánar er fjallað um laun leikmanna í Noregi í Morgunblaðinu í dag.