Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, fékk sitt fyrsta tækifæri með Barcelona á þessu keppnistímabili þegar lið hans tapaði fyrir Villarreal, 3:1, í spænsku 1. deildinni í fyrrakvöld. Eiður Smári kom inn á fyrir Deco á 72. mínútu, þegar Portúgalinn var borinn meiddur af velli, og var tvívegis ágengur við mark Villarreal á lokakafla leiksins.
Öll mörkin voru skoruð á fyrstu 35 mínútunum en það var hinn ungi Bojan Krkic sem gerði mark Barcelona. Hann lék í fremstu víglínu ásamt Thierry Henry og Lionel Messi og kom í stað Ronaldinhos, sem lék ekki vegna meiðsla. Krkic varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu Barcelona sem skorar mark í spænsku 1. deildinni. Krkic, sem á serbneskan föður en er fæddur í Barcelona, varð 17 ára í lok ágúst og hefur verið í röðum félagsins frá 9 ára aldri en faðir hans starfaði hjá félaginu um skeið.
Barcelona fer til Glasgow í dag og leikur þar við Rangers í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.
Þrátt fyrir ósigurinn heldur Real Madrid toppsætinu og er stigi á undan Villarreal og Valencia, og tveimur á undan Barcelona. Fernando Morientes skoraði tvívegis fyrir Valencia sem vann góðan útisigur á Deportivo La Coruna, 4:2.