Græðir Eiður Smári á fjarveru Decos?

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, fékk sitt fyrsta tækifæri með Barcelona á þessu keppnistímabili þegar lið hans tapaði fyrir Villarreal, 3:1, í spænsku 1. deildinni í fyrrakvöld. Eiður Smári kom inn á fyrir Deco á 72. mínútu, þegar Portúgalinn var borinn meiddur af velli, og var tvívegis ágengur við mark Villarreal á lokakafla leiksins.

Öll mörkin voru skoruð á fyrstu 35 mínútunum en það var hinn ungi Bojan Krkic sem gerði mark Barcelona. Hann lék í fremstu víglínu ásamt Thierry Henry og Lionel Messi og kom í stað Ronaldinhos, sem lék ekki vegna meiðsla. Krkic varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu Barcelona sem skorar mark í spænsku 1. deildinni. Krkic, sem á serbneskan föður en er fæddur í Barcelona, varð 17 ára í lok ágúst og hefur verið í röðum félagsins frá 9 ára aldri en faðir hans starfaði hjá félaginu um skeið.

Eiður með í Glasgow annað kvöld?

Deco reif vöðva í læri og verður frá keppni næstu vikurnar og fjarvera hans gæti reynst vatn á myllu Eiðs Smára, sem gæti fengið fleiri tækifæri í næstu leikjum Katalóníuliðsins. Frank Rijkaard er í miklum vandræðum vegna meiðsla miðjumanna og aðeins tveir slíkir eru heilir um þessar mundir, þeir Xavi og Andrés Iniesta. Rikjaard gæti því gripið til þess, eins og José Mourinho hjá Chelsea, að færa Eið aftur á miðjuna í næstu leikjum liðsins.

Barcelona fer til Glasgow í dag og leikur þar við Rangers í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Fyrsta tap Real Madrid

Meistarar Real Madrid töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu, 2:1, gegn Espanyol, þar sem spænskir landsliðsmenn voru í aðalhlutverkum. Albert Riera og Raúl Tamudo skoruðu fyrir Espanyol og Sergio Ramos fyrir Real Madrid, en þeir voru allir á skotskónum fyrir spænska landsliðið í landsleikjunum á dögunum.

Þrátt fyrir ósigurinn heldur Real Madrid toppsætinu og er stigi á undan Villarreal og Valencia, og tveimur á undan Barcelona. Fernando Morientes skoraði tvívegis fyrir Valencia sem vann góðan útisigur á Deportivo La Coruna, 4:2.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert