Eyjólfur hættur sem þjálfari landsliðsins

Eyjólfur Sverrisson er hættur sem þjálfari íslenska landsliðsins
Eyjólfur Sverrisson er hættur sem þjálfari íslenska landsliðsins mbl.is/Brynjar Gauti

Eyjólfur Sverrisson er hættur sem þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu en stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í dag að endurnýja ekki ráðningasamninginn við Eyjólf sem rennur út þann 31. október næstkomandi. Eyjólfur mun því ekki stýra íslenska landsliðinu í leiknum gegn Dönum sem fram fer á Parken þann 21. nóvember en það er lokaleikur landsliðsins í undankeppni EM.

Síðasti leikur landsliðsins undir stjórn Eyjólfs var gegn Liechtenstein í undankeppni Evrópumótsins þar sem Íslendingar töpuðu, 3:0.

Eyjólfur stýrði íslenska landsliðinu í 14 leikjum. Liðið vann 2 leiki undir hans stjórn, báða gegn N-Írum, tapaði 8 og gerði 4 jafntefli.

Ekki liggur ljóst fyrir hver muni stjórna íslenska landsliðinu gegn Dönum á Parken. Leit er hafin að eftirmanni Eyjólfs en ekki er ósennilegt að leitað verði til Willum Þórs Þórssonar, þjálfara Íslandsmeistara Vals, eða Ólafs Jóhannessonar fyrrum þjálfara bikarmeistara FH, til þess að stýra liðinu á Parken eða jafnvel Guðjóns Þórðarsonar, þjálfara ÍA, og fyrrum landsliðsþjálfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert