Henning Berg, fyrrum varnarmaður ensku úrvalsdeildarliðanna Blackburn og Manchester United, sem hefur á undanförnum misserum þjálfað norska liðið Lyn, segir hugarfarið vera það fyrsta sem hann taki eftir hjá íslenskum leikmönnum. Þeir séu alltaf að reyna að gera sitt besta, þeir leggja sig fram á æfingum og eru andlega sterkir.
Þjálfarinn hefur kynnst nokkrum íslenskum leikmönnum á undanförnum misserum. Indriði Sigurðsson er eini íslenski leikmaðurinn í liði Lyn þessa stundina. Stefán Gíslason lék einnig undir stjórn Hennings og Emil Hallfreðsson var í nokkrar vikur í herbúðum Lyn áður en hann fór til Reggina á Ítalíu. Henning segir það hafa komið sér á óvart að Indriði hefur ekki átt fast sæti í íslenska landsliðinu á undanförnum misserum.
„Ég á erfitt með að skilja það að hann sé ekki valinn í íslenska landsliðið. Ég skil það ekki. Reyndar þekki ég ekki alla íslensku leikmennina sem eru í landsliðinu en ég á erfitt með að skilja það að ekki sé hægt að nota leikmann sem getur skilað tveimur stöðum í vörninni mjög vel. Íslenska landsliðið hlýtur að vera með mjög marga góða leikmenn í mörgum stöðum ef það er ekki hægt að nota leikmenn á borð við "Indi" og Stefán Gíslason. Ef það eru til betri leikmenn er ég undrandi á því að liðið hefur ekki náð betri árangri að undanförnu."
Samningur Hennings við Lyn rennur út í lok ársins 2008 og hefur hann hug á því að gera nýjan samning við félagið. Hann leynir því ekki að íslenskir leikmenn séu alltaf undir smásjánni hjá Lyn og það er greinilegt að hann þekkir nöfnin á nokkrum ungum og efnilegum leikmönnum.