Ólafur Jóhannesson stígur fram á sviðið á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld þegar hann stjórnar íslenska landsliðinu í knattspyrnu í fyrsta sinn í leik gegn Dönum í lokaumferð riðlakeppni Evrópumótsins. Ekki er víst að handbragð Ólafs sjáist á leik íslenska liðsins í kvöld enda hann nýtekinn við því en leikurinn snýst fyrst og fremst um að vinna upp æruna eftir ófararirnar í leikjunum gegn Lettum og sérstaklega Liechtensteinum í síðasta mánuði.
Spurður út í undirbúninginn fyrir leikinn sagði Ólafur: ,,Hann hefur gengið mjög vel og við, þeir sem eru að koma að liðinu í fyrsta sinn, ég, Pétur Pétursson og Bjarni Sigurðsson, erum mjög ánægðir. Við höfum spjallað mikið við strákana enda þurfum við að kynnast þeim og þeir okkur,“, sagði hann.
,,Íslenska landsliðið þarf að verjast og það vel. Það er algjört skilyrði ef okkur á að takast að bæta árangur liðsins. Við höfum á æfingum fyrir leikinn farið vel yfir varnarþáttinn og erum búnir að leggja línurnar. Ég kem til með að stilla upp fjögurra manna varnarlínu og á miðjunni verða þeir varnarsinnaðir leikmenn. Leikkerfið 4:5:1 þegar við verjumst en getur breyst í 4:3:3 þegar við sækjum á þá. Ég reikna með að Danirnir haldi sig við leikaðferðina 4:3:3. Morten Olsen hefur verið gagnrýndur fyrir þetta leikkerfi en ég tel að hann haldi sig við það.“