Lúkas Kostic, þjálfari íslenska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, var að vonum afar ánægður með frammistöðu sinna manna í gærkvöld þegar þeir unnu frækilegan sigur á Belgum, 2:1, í Brussel. Íslenska liðið er þá komið með sex stig í Evrópukeppninni og hefur aðeins tapað einu sinni í fyrstu fimm leikjunum.
Lúkas gat þó ekki orða bundist yfir dómgæslunni. „Maður á ekki að tala um dómara eftir svona sigurleik en það er ekki hægt annað. Hann var nálægt því að eyðileggja leikinn, hann átti að dæma tvær vítaspyrnur og reka mann útaf í fyrri hálfleik. Við lékum glæsilega í fyrri hálfleik og hefðum þá átt að slátra þeim.
Við höfum leikið betur og betur í síðustu leikjum, spilum einnar snertingar fótbolta, og þetta er uppskeran af því. Leikurinn átti að fara 3:0 eða 4:0 en ekki 2:1, og þá hefði þetta verið stórglæsilegur sigur. Dómgæslan hafði mikil áhrif á strákana.
Það er mikil framtíð í þessu liði, strákarnir eru duglegir, harðir og góðir með boltann. Knattspyrnugetan er mjög mikil, þetta eru strákar sem ætla sér alla leið og ég er sannfærður um að þessi sigur mun reynast þeim vel síðar. Ég er líka viss um að margir af þessum strákum munu banka á dyr A-landsliðsins næstu tvö árin, þetta er framtíð Íslands," sagði Lúkas Kostic við fréttavef Morgunblaðsins.