Læknir norska knattspyrnuliðsins Brann hefur bannað Kristjáni Erni Sigurðssyni að æfa með liðinu um sinn vegna höfuðhöggsins sem hann fékk í landsleik Íslands og Danmerkur á Parken í fyrrakvöld.´
Kristján Örn lenti þá í árekstri við Grétar Rafn Steinsson, eftir aðeins sex mínútna leik, og varð að fara af velli í kjölfarið. Brann býr sig undir leik gegn Dinamo Zagreb í UEFA-bikarnum næsta fimmtudag en Kristján veit ekki hvenær hann má byrja að æfa með liðinu.
"Mér er sagt að það sé hætta á að ég hafi fengið heilahristing en ég veit ekki hvenær ég gert æft á ný. Ég tala við lækninn á ný á mánudaginn og þá sjáum við hvernig staðan er. Ég sé ennþá tvöfalt svo ég verð bara að taka því rólega og vona að ég verði kominn aftur í slaginn sem fyrst," segir Kristján Örn á vef Brann í dag.