„Þetta var mikil athöfn og eflaust svipað og setningaathöfn fyrir þá sem hafa farið á ólympíuleika. Hjartað fór aðeins að slá hraðar þegar leið á en ég er tiltölulega ánægður með þau lið sem verða mótherjar okkar í riðlinum. Að mínu mati hentar það íslenska landsliðinu vel að leika gegn liðum á borð við Skotland og Noreg. Hollendingar eru að sjálfsögðu langsigurstranglegasta liðið í þessum riðli en ég verð að játa það að ég veit nákvæmlega ekkert um Makedóníu á þessari stundu," sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska landsliðsins við mbl.is í dag.
Ólafur er staddur í Durban í Suður-Afríku þar sem að dregið var í riðla fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Suður-Afríku árið 2010. „Ég var svo sem ekki búinn að gera lista yfir óskamótherja en ég vildi fá Englendinga, við fengum Skotland, sem er fínn kostur en vissulega hefði verið gríðarlega spennandi að leika gegn Englendingum. Mér líst vel á að leika gegn Noregi. Það er betri kostur en Svíþjóð eða Danmörk. Leikstíll Norðmanna er líkari því sem við þekkjum frá liðum frá Bretlandseyjum - og það er kostur fyrir okkur að mínu mati," sagði Ólafur.
Nánar verður rætt við Ólaf í Morgunblaðinu á morgun.