Ísland og Færeyjar mætast í vináttulandsleik í knattspyrnu í lok mars og verður leikið í knattspyrnuhöllinni Kórnum í Kópavogi. Frá þessu var skýrt á vef færeyska knattspyrnusambandsins í dag.
Sagt er að endanleg dagsetning liggi ekki fyrir en Jógvan Martin Ólsen, landsliðsþjálfari Færeyja, kveðst mjög ánægður með þetta, sem og fyrirhugaðan leik við Lúxemborg í Færeyjum um vorið.
„Við vorum í mjög sterkum riðli í undankeppni EM og okkar menn hafa þörf fyrir að mæta liðum sem eru nær því að vera í sama styrkleika og við Færeyingar. Að því leyti eru Lúxemborg og Ísland góðir mótherjar," sagði Jógvan við vefinn.
Geir Þorsteinsson formaður KSí staðfesti við fréttavef Morgunblaðsins að samið hefði verið við Færeyinga um leikinn.