Brasilíumaðurinn Kaká var í dag útnefndur knattspyrnumaður ársins í Evrópu af franska knattspyrnutímaritinu France Football. Hann hlýtur Gullboltann, Ballon d'Or, en það eru íþróttafréttamenn víðs vegar að úr heiminum sem greiða atkvæði í kjörinu.
Kaká var lykilmaður í sigri AC Milan í Meistaradeild Evrópu síðasta vor. Cristiano Ronaldo, Portúgalinn í Manchester United, varð annar í kjörinu og Lionel Messi, Argentínumaðurinn hjá Barcelona, hafnaði í þriðja sæti.
„Þetta er mjög sérstakt fyrir mig og er toppurinn á einstöku ári á mínum ferli. Til að vinna svona verðlaun þarf maður að spila fyrir lið á borð við AC Milan, og það er frábært að vera hluti af slíkri liðsheild," sagði Kaká við France Football.