Margrét Lára Viðarsdóttir leikmaður Íslandsmeistaraliðs Vals var í kvöld valin sem knattspyrnukona ársins 2007 en það er Knattspyrnusamband Íslands sem stendur að kjörinu.
Hólmfríður Magnúsdóttir úr KR varð önnur og Ásthildur Helgadóttir varð þriðja. Ásthildur hefur leikið með Malmö í Svíþjóð undanfarin ár en hún tilkynnti á dögunum að hún væri hætt vegna meiðsla.
Til og með 1996 var útnefndur knattspyrnumaður ársins, og náði útnefningin þá til beggja kynja. Árið 1997 varð breyting á og eru nú útnefnd knattspyrnumaður og knattspyrnukona ársins. Knattspyrnufólk ársins var áður útnefnt af stjórn KSÍ, en árið 2004 tók Leikmannaval KSÍ við.
Í leikmannavali KSÍ eru aðallega fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni.
Ásta B. Gunnlaugsdóttir var kjörin knattspyrnumaður ársins 1994 og er hún eina konan sem fékk þá viðurkenningu áður en kynjaskipting var sett á laggirnar árið 1997.
Þeir leikmenn sem hafa fengið þessa viðurkenningu frá árinu 1997 eru:
2006 Margrét Lára Viðarsdóttir Valur
2005 Ásthildur Helgadóttir Malmö
2004 Margrét Lára Viðarsdóttir ÍBV
2003 Ásthildur Helgadóttir KR
2002 Ásthildur Helgadóttir KR
2001 Olga Færseth KR
2000 Rakel Ögmundsdóttir Breiðablik
1999 Guðlaug Jónsdóttir KR
1998 Katrín Jónsdóttir Kolbotn
1997 Guðrún Jóna Kristjánsdóttir KR