Cagliari rekur þjálfara númer tvö

Francesco Pisano, leikmaður Cagliari, til vinstri, í leik gegn Roma.
Francesco Pisano, leikmaður Cagliari, til vinstri, í leik gegn Roma. Reuters

Cagliari, neðsta liðið í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu, hefur í annað skiptið á þessu keppnistímabili sagt þjálfara sínum upp störfum.

Cagliari, sem er frá eyjunni Sardiníu, lét Marco Giampaolo fara eftir slæma byrjun á tímabilinu og réð Nedo Sonetti í hans stað þann 13. nóvember. Undir hans stjórn hefur liðið hinsvegar aðeins bætt einu stigi í sarpinn.

Sonetti lagði inn uppsagnarbréf í síðustu viku og þá freistaði stjórn Cagliari að þess að fá Giampaolo til að snúa aftur til félagsins. Hann neitaði, og þá var uppsögn Sonettis ekki tekin til greina.

En á Þorláksmessu steinlá Cagliari fyrir Fiorentina, 1:5. Sonetti hafði skömmu fyrir leik samþykkt að halda áfram störfum um sinn, en í dag tilkynnti Massimo Cellino, forseti Cagliari, að ákveðið hefði verið að láta hann fara. Cellino freistar þess nú að fá David Ballardini til félagsins en hann stýrði liðinu til bráðabirgða, í níu leikjum, haustið 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert