Phil O'Donnell, fyrirliði skoska úrvalsdeildarliðsins Motherwell, lést á sjúkrahúsi nú undir kvöld en þangað var hann fluttur eftir að hann hné niður undir lok leiks Motherwell og Dundee United, sem fyrrnefnda liðið vann 5:3. Bill Dickie, forseti félagsins, staðfesti þetta við fréttamenn.
Skipta átti O'Donnell, sem var 35 ára, út af og Marc Fitzpatrick átti að taka stöðu hans. Læknar hlúðu að leikmanninum í um 5 mínútur þar sem hann lá á vellinum en hann var síðan borinn út af.
Mark McGhee, knattspyrnustjóri Motherwell, sagði að ástæðan fyrir skiptingunni hafi ekki verið sú, að O'Donnell hefði kennt sér einhvers meins, hann hefði ætlað að hvíla hann þar sem stutt væri í næsta leik liðsins.
David Clarkson, sem er frændi O'Donnells, var tekinn af leikvelli skömmu síðar en hann skoraði 2 mörk í leiknum. McGhee sagði að Clarkson hefði verið brugðið þegar frændi hans hné niður, eins og fleiri leikmönnum liðsins.