Emil Hallfreðsson, leikmaður Reggina á Ítalíu, getur ekki leikið með íslenska landsliðinu í knattspyrnu gegn Armeníu í dag þegar þjóðirnar mætast í lokaumferð Möltumótsins. Þá hafa tveir leikmenn haldið heimleiðis frá Möltu og verða ekki með, Sverrir Garðarsson vegna meiðsla og Helgi Sigurðsson vegna náms.
Þar með er það bara Hermann Hreiðarsson sem bætist í hópinn fyrir leikinn gegn Armeníu en upphaflega áttu sex leikmenn að koma sérstaklega í þann leik. Hermann verður fyrirliði Íslands í dag.
„Emil lék sinn fyrsta leik með Reggina á sunnudaginn eftir tveggja mánaða fjarveru vegna meiðsla. Hann var stífur og stirður eftir leikinn og það var ekki forsvaranlegt að láta hann spila landsleik þremur dögum síðar,“ sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari við Morgunblaðið í gærkvöld.
Upphaflega komu 27 leikmenn til greina í leikinn gegn Armeníu en nú eru alls níu þeirra úr leik svo 18 manna hópurinn velur sig sjálfur.