Íslendingar sigruðu Armena 2:0

Bjarni Guðjónsson í baráttunni á Möltumótinu.
Bjarni Guðjónsson í baráttunni á Möltumótinu. Ljósmynd Domenic Aquilina

Ísland lauk keppni á Möltumótinu í knattspyrnu í dag með góðum sigri á Armeníu, 2:0. Tryggvi Guðmundsson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoruðu mörk íslenska liðsins sem fékk 3 stig úr 3 leikjum á mótinu.

Leikurinn var í jafnvægi í fyrri hálfleik og hvort lið fékk eitt ágætt marktækifæri á fyrstu 25 mínútunum. Tryggvi Guðmundsson var næstur því að skora fyrir Íslands en hann skallaði yfir mark Armena úr miðjum vítateig. Ísland sótti meira síðustu 15 mínútur hálfleiksins.

Það var síðan Tryggvi Guðmundsson sem kom íslenska liðinu yfir í uppbótartíma í fyrri hálfleiknum. Hann skoraði þá af stuttu færi eftir góða sendingu frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni, 1:0.

Lítið gerðist uppvið mörkin framan af síðari hálfleiknum. Á 72. mínútu átti Ísland góða skyndisókn og Jónas Guðni Sævarsson sendi boltann á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem skoraði, 2:0.

Lið Íslands: Kjartan Sturluson - Birkir Már Sævarsson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ragnar Sigurðsson, Hermann Hreiðarsson (Bjarni Ólafur Eiríksson 73.) - Eyjólfur Héðinsson (Pálmi Rafn Pálmason 65.), Bjarni Guðjónsson (Davíð Þór Viðarsson 83.), Stefán Gíslason, Jónas Guðni Sævarsson, Tryggvi Guðmundsson (Hjálmar Jónsson 83.) - Gunnar Heiðar Þorvaldsson (Baldur I. Aðalsteinsson 73.)

Armenar eru með 6 stig og hafa lokið keppni, og geta unnið mótið þó þeir hafi tapað fyrir Íslendingum. Hvíta-Rússland og Malta leika í kvöld en bæði lið eru með 3 stig, eins og Íslendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert