Rautt spjald fyrir að ráðast á starfsmann

Andre Bikey nr. 23 missir af úrslitaleik Afríkumótsins eftir að …
Andre Bikey nr. 23 missir af úrslitaleik Afríkumótsins eftir að hann fékk rautt spjald fyrir að ráðast á starfsmann á lokamínútu undanúrslitaleiksins. Reuters

Andre Bikey varnarmaður í landsliði Kamerún fékk rautt spjald í undanúrslitaleik liðsins gegn Gana í gær í Afríkukeppninni í knattspyrnu en hann missti stjórn á sér á lokamínútu leiksins. Bikey ýtti við harkalega við einum starfsmanni sem var mættur inn á völlinn ásamt fleirum til þess að huga að meiðslum Rigobert Song fyrirliða Kamerún.

Abderrahim El Arjoun , dómari leiksins, sá atvikið mjög vel og gaf hann Bikey umsvifalaust rautt spjald og missir hann af úrslitaleiknum gegn Egyptalandi.  Bikey fagnaði lítið í leikslok þrátt fyrir 1:0-sigur liðsins enda einstakt að leikmenn ráðist á starfsmenn í knattspyrnuleik. Hann er samherji Ívars Ingimarssonar og Brynjars Gunnarssonar hjá enska úrvalsdeildarliðinu Reading en þar er hann sem lánsmaður frá rússneska liðinu Lokomotiv frá Moskvu.

Stuðningsmenn Gana voru ekki ánægðir með tilþrifin hjá Bikey og köstuðu margir vatnsflöskum í átt að honum þegar hann gekk af velli á Ohene Djan-leikvellinum. Kamerún hefur fjórum sinnum sigrað í Afríkukeppninni en Egyptar hafa titil að verja í keppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert