Írskt dagblað fullyrðir í dag að hinn kunni ítalski knattspyrnuþjálfari Giovanni Trapattoni taki við írska landsliðinu í vor, þegar samningur hans við Salzburg í Austurríki rennur út.
Irish Examiner fullyrðir að Trapattoni hafi hitt „vitringana þrjá“ í gærkvöld en það er nafnið, sem gefið hefur verið þriggja manna nefndinni sem írska knattspyrnusambandið skipaði til að finna nýjan þjálfara.
Hvorki sambandið né forráðamenn Salzburg vildu segja nokkuð um málið við fréttastofu Reuters í dag, nema hvað talsmaður sambandsins sagði að nefndin myndi leggja tillögur sínar fyrir síðar í þessari viku.
Steve Staunton var sagt upp störfum í október og Don Givens hefur stýrt írska liðinu til bráðabirgða en hann er í forsvari fyrir umræddri nefnd.
Irish Examiner segir að framkvæmdastjóri írska knattspyrnusambandsins muni hitta fulltrúa Trapattonis í vikunni til að ganga frá samningnum.
Trapattoni er 68 ára gamall og hefur þjálfað hálfa ævina, eða frá 34 ára aldri. Hann hefur stýrt AC Milan, Juventus, Inter Mílanó, Bayern München, Cagliari, Fiorentina, ítalska landsliðinu, Benfica, Stuttgart og nú síðast Salzburg frá árinu 2006. Hann á fjölda titla að baki og gerði Juventus m.a. að Evrópumeisturum 1985 og liðið varð sex sinnum ítalskur meistari á tíu árum undir hans stjórn.