Spænska íþróttadagblaðið Marca heldur því fram að miklar hreinsanir verði hjá knattspyrnustórveldinu Barcelona í vor ef það vinnur ekki titla á yfirstandandi tímabili. Leikmenn og þjálfarar verði látnir fara í stórum stíl og Eiður Smári Guðjohnsen er þar nefndur til sögunnar.
Aðeins samið við einn
Fimm leikmenn Barcelona eru með samning sem rennur út í vor.
Marca telur að einungis verði samið við einn þeirra að nýju, varamarkvörðinn José Manuel Pinto. Hinir fjórir verði látnir fara, hvort sem liðið vinnur titil eður ei, en það eru Lilian Thuram, Edmílson, Santi Ezquerro og Sylvinho.
Þá telur Marca að sex leikmenn sem eru með lengri samning verði boðnir til sölu, enda hafi þeir allir verið orðaðir við önnur lið á undanförnum mánuðum.
Ronaldinho er þar efstur á blaði en síðan koma Deco, Eiður Smári, Giovani Dos Santos, Gianluca Zambrotta og Oleguer.
Rijkaard og Neeskens pakka niður
Marca segir ennfremur að Frank Rijkaard þjálfari verði látinn fara ásamt aðstoðarmanni sínum, Johan Neeskens, og jafnvel fleirum úr þjálfarasveit félagsins. Það er reyndar í þversögn við orð forseta Barcelona, Joans Laporta, sem sagði á dögunum að svo lengi sem hann stjórnaði félaginu yrði Rijkaard þjálfari liðsins.