Eiður Smári Guðjohnsen er í 18 manna hópnum hjá Barcelona fyrir leikinn gegn Celtic í Meistaradeild Evrópu sem fram fer í Glasgow á miðvikudagskvöldið. Hann segir leikinn einn þann mikilvægasta hjá liði sínu í vetur.
Þeir Bojan Krkic, Gianluca Zambrotta og Edmílson voru ekki valdir í hópinn fyrir Skotlandsferðina og þá eru Oleguer og Ezquerro meiddir, ásamt varamarkverðinum Albert Jorquera.
Hópurinn er þannig skipaður: Valdes, Pinto; Puyol, Thuram, Marquez, Milito, Abidal, Sylvinho; Touré, Xavi, Iniesta, Deco, Eiður Smári, Ronaldinho, Messi, Henry, Eto'o, Giovani.
Eiður var í viðtali hjá Celtic TV, sjónvarpsstöð Celtic, í dag og sagði þar að leikurinn væri gífurlega mikilvægur fyrir Barcelona.
„Við erum ekki í þeirri stöðu sem við ætluðum okkur í deildinni og það þýðir að Meistaradeildin er okkur enn mikilvægari en áður. Við verðum að vinna þessa leiki og komast áfram. Það er hægara sagt en gert því það eru aðeins topplið eftir í keppninni, eins og Celtic.
Við verðum að vera mjög einbeittir og tilbúnir í baráttuna því skosk lið gefa allt sitt í leikinn frá fyrstu mínútu til síðustu. Einbeitingin er okkar lykilorð. Við höfum hinsvegar ekki áhyggjur af því að spila í Glasgow, þvert á móti hlökkum við mikið til. Sumir félaga minna segja að það að spila í Skotlandi sé einhver skemmtilegasta stemmning sem þeir hafi upplifað. Við eigum að njóta leikjanna, ekki kvíða fyrir þeim. Allir þekkja ástríðu stuðningsmanna Celtic og þeirra menn spila örugglega fyrir stoltið," sagði Eiður við Celtic TV.