ÍR-ingar í úrslit gegn Frömurum

Guðlaugur Baldursson þjálfari ÍR er kominn með sína menn í …
Guðlaugur Baldursson þjálfari ÍR er kominn með sína menn í úrslitaleik gegn Fram. Árvakur/Árni Torfason

ÍR-ingar, sem leika í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, eru komnir í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í knattspyrnu eftir óvæntan sigur á úrvalsdeildarliði Fjölnis í gærkvöld, 2:1. Þeir mæta Fram í úrslitaleiknum.

Fjölni nægði jafntefli í leiknum til að vinna A-riðilinn og komast í úrslitin en Valur og KR voru úr leik í baráttunni um að komast áfram. Gunnar Már Guðmundsson kom Fjölni yfir en Davíð Már Stefánsson og Guðfinnur Ómarsson svöruðu fyrir ÍR. Það var síðan markvörðurinn Þorsteinn V. Einarsson sem var hetja Breiðhyltinga því hann varði vítaspyrnu frá Gunnari Má seint í leiknum og tryggði þeim sigurinn.

Það urðu líka nokkuð óvænt úrslit í hinum riðlinum. Fylkir tapaði 0:1 fyrir Víkingi þar sem Egill Atlason skoraði sigurmarkið. Fylki nægði jafntefli til að vinna riðilinn og leika til úrslita en misstu með tapinu efsta sætið í hendur Framara. Liðin fengu bæði 6 stig en Fram var með betri markatölu.

Úrslitaleikur ÍR og Fram verður leikinn í Egilshöllinni fimmtudaginn 28. febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert