Barcelona tapaði fyrir Atletico Madrid, 4:2, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld en liðin áttust við á Vicente Calderón vellinum í Madrid í kvöld. Eiður Smári Guðjohnsen kom inná á 18. mínútu í síðari hálfleik og átti þátt í seinna marki Börsunga. Á sama tíma og Barcelona tapaði fagnaði Real Madrid sigri og er liðið með fimm stiga forskot á Barcelona.
Ronaldinho kom Barcelona yfir en Madridingar svöruðu með fjórum mörkum. Agüero skoraði tvívegis og þeir Rodriguez og Diego Forlan sitt markið hver. Samuel Eto'o minnkaði muninn í 4:2. Eiður Smári slapp þá í gegn. Varnarmaður náði að komast í veg fyrir skotið en boltinn fór til Eto'o sem skoraði.
Real Madrid lagði Recreativo Huelva á útivelli, 3:2. Raul skoraði fyrsta markið og Robinho bætti við tveimur mörkum á lokamínútunum.