Margrét Lára Viðarsdóttir varð markadrottning Algarve-mótsins í knattspyrnu annað árið í röð. Hún skoraði sitt sjötta mark í fjórum leikjum á mótinu í gær þegar Ísland vann Finnland, 3:0, og varð ein á toppi markalistans. Í fyrra deildi hún efsta sætinu með Carli Lloyd frá Bandaríkjunum. Þær gerðu þá fjögur mörk hvor.
Næstar á eftir Margréti voru þrjár þekktar knattspyrnukonur sem gerðu 3 mörk hver. Birgit Prinz frá Þýskalandi, Abby Wambach frá Bandaríkjunum og Cathrine Paaske Sörensen frá Danmörku en tvær þær síðarnefndu skoruðu í úrslitaleiknum í gær.
*Margrét Lára skoraði jafnframt í sínum áttunda landsleik í röð en hún skoraði í fjórum síðustu landsleikjum ársins 2007 og hefur nú gert mörk í fjórum fyrstu leikjum ársins 2008.
*Samtals er Margrét Lára nú komin með 35 mörk í 39 A-landsleikjum en Ásthildur Helgadóttir er næstmarkahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 23 mörk.