Gríska knattspyrnufélagið PAOK Saloniki hefur lýst yfir áhuga á að kaupa Ólaf Inga Skúlason, íslenska landsliðsmanninn, af Helsingborg í Svíþjóð. Framkvæmdastjóri Helsingborg hefur staðfest þetta.
Netmiðillinn Fotbollskanalen.se skýrir frá þessu í dag og segir að Grikkirnir séu tilbúnir til að greiða 28 milljónir sænskra króna, 315 milljónir íslenskra króna, fyrir Ólaf.
„Grískur umboðsmaður hefur haft samband við mig og við munum skoða hvað þeir hyggjast fyrir. En við höfum ekki mikinn áhuga á að láta Ólaf Inga fara því við ætlum okkur að byggja lið okkar að miklu leyti í kringum hann," segir framkvæmdastjórinn Jesper Jansson við vefinn.
„Það er alltaf gaman þegar einhver sýnir áhuga. Maður getur verið stoltur af því, það segir að maður hafi gert eitthvað rétt. Sjálfsagt hafa þeir séð mig spila í UEFA-bikarnum í haust. Ég hef heyrt að það sé tilboð væntanlegt og við bíðum og sjáum hvernig það lítur út," sagði Ólafur Ingi við Fotbollskanalen.se.
PAOK er í níunda sæti af sextán liðum í grísku 1. deildinni, þeirri efstu, og siglir þar lygnan sjó en Panathinaikos, Olympiakos og AEK skera sig talsvert frá öðrum liðum í deildinni.