Ísland sigraði Færeyjar örugglega, 3:0

Helgi Sigurðsson var reyndasti leikmaður Íslands í dag og spilaði …
Helgi Sigurðsson var reyndasti leikmaður Íslands í dag og spilaði sinn 62. landsleik. mbl.is

Ísland sigraði Færeyjar, 3:0, í vináttulandsleik í knattspyrnu sem fram fór í Kórnum í Kópavogi í dag. Jónas Guðni Sævarsson og Tryggvi Guðmundsson gerðu sitt markið hvor og Fróði Benjamínsen skoraði sjálfsmark.

Víðir Sigurðsson skrifar úr Kórnum í Kópavogi:

Tryggvi Guðmundsson átti fyrsta færið á 5. mínútu en varnarmaður Færeyja náði að komast fyrir skot hans rétt utan markteigs. Á 9. mínútu átti Arnbjörn Hansen hættulegan skalla að marki Íslands eftir aukaspyrnu frá Atla Danielsen en rétt yfir.

Íslenska liðið átti hættulegri sóknir fyrsta stundarfjórðunginn en vantaði herslumuninn til að fylgja þeim eftir. Símun Samuelsen var hættulegur á hægri kantinum hjá Færeyingum og gerði tvívegis usla í vörn Íslands án þess að það skapaði marktækifæri.

Arnbjörn Hansen komst í færi á 20. mínútu eftir snögga sókn Færeyinga en skaut yfir íslenska markið frá vítateig.

Færeyingar fengu dauðafæri á 23. mínútu. Símun Samuelsen lék upp völlinn og renndi boltanum innfyrir vörnina á Arnbjörn Hansen sem var einn gegn Kjartani Sturlusyni en honum tókst að verja með góðu úthlaupi.

Helgi Sigurðsson átti skot að marki á 29. mínútu eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar en varnarmaður bjargaði á markteignum.

Helgi Sigurðsson var hársbreidd frá því að skora á 35. mínútu. Baldur I. Aðalsteinsson átti fasta fyrirgjöf frá endamörkum hægra megin, Helgi kastaði sér fram og reyndi að skalla en missti hárfínt af boltanum

Atli Sveinn Þórarinsson átti skalla að marki Færeyja á 41. mínútu eftir fyrirgjöf Davíðs Þórs Viðarssonar frá hægri en framhjá markinu.

Ísland náði forystunni á 45. mínútu. Baldur I. Aðalsteinsson sendi boltann fyrir markið frá hægri og Jónas Guðni Sævarsson, minnsti maður vallarins, kom á ferðinni og skoraði með glæsilegum skalla, efst í markhornið, 1:0. Um 30 sekúndum síðar var flautað til hálfleiks.

Óhætt er að segja að þetta fallega mark hafi bjargað annars tilþrifalitlum fyrri hálfleik þar sem Ísland var meira með boltann en náði ekki að nýta sér það fyrr en í lok hálfleiksins. Ísland átti 4 markskot í hálfleiknum en Færeyjar 3. Ísland fékk 3 hornspyrnur og Færeyjar 2. Íslendingar voru þrívegis dæmdir rangstæðir. 

Landsliðsþjálfararnir Ólafur Jóhannesson og Jógvan Martin Olsen gerðu engar breytingar á liðunum í hálfleik.

Símun Samuelsen var enn ágengur á 49. mínútu þegar hann átti hættulega fyrirgjöf frá hægri. Heimir Einarsson náði að stýra boltanum til Kjartans Sturlusonar markvarðar en Færeyingur var í dauðafæri fyrir aftan hann.

Helgi Sigurðsson átti skalla að marki Færeyja á 52. mínútu eftir fyrirgjöf Tryggva Guðmundssonar frá hægri en rétt framhjá.

Tryggvi Guðmundsson átti skalla að marki á 56. mínútu eftir fyrirgjöf Birkis Más Sævarssonar en Jákup Mikkelsen varði örugglega.

Helgi Sigurðsson var borinn af velli á 58. mínútu og Marel Baldvinsson kom inná í hans stað.

Á 63. mínútu munaði engu að Ísland kæmist í 2:0. Tryggvi Guðmundsson tók hornspyrnu og Aron Einar Gunnarsson átti skalla af markteig sem Jákup Mikkelsen varði mjög vel.

Á 64. mínútu átti Atli Danielsen gott skot að marki Íslands af 30 metra færi sem Kjartan Sturluson varði vel. Á 65. mínútu lék Christian Högni Jacobsen að vítateig og skaut en Kjartan Sturluson varði af öryggi.

Símun Samuelsen fór meiddur af velli á 68. mínútu og Bergur Midjord kom í hans stað.

Marel Baldvinsson komst í dauðafæri á 69. mínútu eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar en Jákup Mikkelsen varði vel með fótunum.

Ísland komst í 2:0 á 72. mínútu. Eftir laglega sókn komst Tryggvi Guðmundsson inní vítateiginn vinstra megin og renndi boltanum fyrir þar sem Fróði Benjamínsen stýrði honum í eigið mark.

Á 73. mínútu gerðu bæði lið tvær breytingar. Hjá Íslandi komu Hallgrímur Jónasson og Pálmi Rafn Pálmason inná fyrir Davíð Þór Viðarsson og Baldur I. Aðalsteinsson. Hjá Færeyjum komu Rókur av Flötum Jespersen og Hjalgrím Elttör inná fyrir Arnbjörn Hansen og Christian Högna Jacobsen. 

Ísland komst í 3:0 á 79. mínútu eftir glæsilega sókn. Marel Baldvinsson sendi á Pálma Rafn Pálmason inní vítatetiginn, hann átti laglega hælsendingu á Tryggva Guðmundsson sem skoraði af öryggi.

Á 80. mínútu gerðu Færeyingar þrjár breytingar. Atli Danielsen, Einar Hansen og Ingi Höjsted fóru af velli, inná komu Mortan úr Hörg, Klæmint Matras og Kristoffer Jakobsen.

Á 82. mínútu fór Bjarni Ólafur Eiríksson af velli og inná kom Hjörtur Logi Valgarðsson.

Á 84. mínútu fóru Heimir Einarsson og Tryggvi Guðmundsson af velli og inná komu Guðmann Þórisson og Guðmundur Reynir Gunnarsson.

Á 86. mínútu fékk Rógvi Jacobsen gula spjaldið fyrir að brjóta á Aroni Einari Gunnarssyni. Á 88. mínútu  braut Rógvi aftur illa á Aroni og norski dómarinn átti ekki annars úrkosta en að reka hann af velli.

Aron Einar Gunnarsson þurfti að yfirgefa völlinn á 90. mínútu vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í seinna broti Rógva og bæði lið voru því með 10 menn þær 5 mínútur sem bætt var við leiktímann. 

Marel Baldvinsson skallaði yfir færeyska markið á 93. mínútu eftir aukaspyrnu Birkis Más Sævarssonar.

Seinni hálfleikurinn var mun betri af hálfu Íslands en sá fyrri og úrslitin sanngjörn. Íslenska liðið átti alls 14 markskot í leiknum en færeyska liðið 6. Ísland fékk 6 hornspyrnur og Færeyjar 3.

Færeyingar voru með sex fastamenn í sínu byrjunarliði en ekki er hægt að flokka neinn Íslendinganna sem slíkan.  Helgi Sigurðsson og Tryggvi Guðmundsson áttu fyrir leikinn 101 landsleik að baki samanlagt en hinir níu í byrjunarliði Íslands spilað samtals 31 landsleik. Baldur I. Aðalsteinsson var þriðji hæstur með 7 landsleiki.

Akureyringurinn Atli Sveinn Þórarinsson, sem leikur með Val, var fyrirliði Íslands í fyrsta skipti. Fyrirliði Færeyja var markvörðurinn reyndi Jákup Mikkelsen frá Klakksvík sem lengi lék með dönskum liðum.

Heimir Einarsson frá Akranesi lék í dag sinn fyrsta A-landsleik. Hjá Færeyjum voru tveir nýliðar í byrjunarliðinu, Jóhan Toest Davidsen og Óli Hansen, sem báðir leika með Færeyjameisturunum NSÍ frá Runavík.

Þeir Guðmann Þórisson, Hallgrímur Jónasson, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Hjörtur Logi Valgarðsson léku síðan allir sinn fyrsta A-landsleik en þeir komu inná sem varamenn í síðari hálfleik.

Lið Íslands: Kjartan Sturluson - Birkir Már Sævarsson, Atli Sveinn Þórarinsson, Heimir Einarsson (Guðmann Þórisson 84.), Bjarni Ólafur Eiríksson (Hjörtur Logi Valgarðsson 82.) - Baldur I. Aðalsteinsson (Pálmi Rafn Pálmason 73.), Jónas Guðni Sævarsson, Aron Einar Gunnarsson, Davíð Þór Viðarsson (Hallgrímur Jónasson 73.) Tryggvi Guðmundsson (Guðmundur Reynir Gunnarsson 84.) - Helgi Sigurðsson (Marel Baldvinsson 58.)

Lið Færeyja: Jákup Mikkelsen, Jóhan Toest Davidsen, Einar Hansen (Klæmit Matras 80.), Óli Hansen, Atli Danielsen (Mortan úr Hörg 80.), Rógvi Jacobsen, Fróði Benjamínsen, Símun Samuelsen (Bergur Midjord 68.), Arnbjörn Hansen (Rókur af Flötum Jespersen 73.), Christian Högni Jacobsen (Hjalgrím Elttör 73.), Ingi Höjsted (Kristoffur Jakobsen 80.)

Áhorfendur voru 747.

Dómari var Tommy Skjerven frá Noregi og aðstoðardómarar landar hans Svein Inge Wiken og Kim Andre Johnsen. Garðar Örn Hinriksson er fjórði dómari.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert