Valencia í bikarúrslitin

Samuel Eto'o skoraði og Eiður Smári Guðjohnsen lék allan tímann …
Samuel Eto'o skoraði og Eiður Smári Guðjohnsen lék allan tímann en þeir eru úr leik í bikarnum. Reuters

Draumur Eiðs Smára Guðjohnsens um að leika til úrslita með Barcelona í spænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í vor varð að engu í kvöld þegar liðið tapaði, 3:2, fyrir Valencia í undanúrslitum keppninnar á Mestalla leikvanginum í Valencia.

Þetta var síðari leikur liðanna en sá fyrri endaði 1:1. Valencia sigraði 4:3 samanlagt og mætir Getafe í úrslitaleiknum. Eiður Smári lék allan leikinn með Barcelona.

Ruben Baraja og Juan Mata komu Valencia í 2:0 í fyrri hálfleik. Thierry Henry kom inná sem varamaður hjá Barcelona í seinni hálfleik og minnkaði muninn í 2:1 á 72. mínútu. Mata svaraði strax mínútu síðar fyrir Valencia, 3:1. Samuel Eto'o skoraði fyrir Barcelona, 3:2, á 80. mínútu en liðið náði ekki að jafna metin og féll þar með úr keppni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert