Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu hefur tilkynnt byrjunarlið sitt fyrir vináttulandsleikinn í Slóvakíu í kvöld. Eiður Smári Guðjohnsen er fremsti maður og hinn 18 ára gamli Aron Einar Gunnarsson er í byrjunarliðinu.
Kristján Örn Sigurðsson er fyrirliði landsliðsins í fyrsta skipti en Ólafur stillir liðinu þannig upp, samkvæmt leikaðferðinni 4-5-1:
Markvörður: Kjartan Sturluson (Val).
Hægri bakvörður: Grétar Rafn Steinsson (Bolton).
Miðverðir: Kristján Örn Sigurðsson (Brann), Ragnar Sigurðsson (IFK Gautaborg).
Vinstri bakvörður: Bjarni Ólafur Eiríksson (Val).
Hægri kantmaður: Theódór Elmar Bjarnason (Lyn).
Varnarmiðjumaður: Aron Einar Gunnarsson (AZ Alkmaar).
Miðjumenn: Stefán Gíslason (Bröndby), Ólafur Ingi Skúlason (Helsingborg).
Vinstri kantmaður: Emil Hallfreðsson (Reggina).
Framherji: Eiður Smári Guðjohnsen (Barcelona).
Varamenn: Stefán Logi Magnússon (KR), Atli Sveinn Þórarinsson (Val), Jónas Guðni Sævarsson (KR), Eggert Gunnþór Jónsson (Hearts), Bjarni Þór Viðarsson (Twente), Tryggvi Guðmundsson (FH), Gunnar Heiðar Þorvaldsson (Vålerenga), Veigar Páll Gunnarsson (Stabæk).
Þetta er þriðji landsleikur Íslands og Slóvakíu. Þjóðirnar mættust á æfingamóti á Kýpur í febrúar 1998 og þá unnu Slóvakar, 2:1. Bjarki Gunnlaugsson skoraði mark Íslands. Þá léku liðin vináttuleik í Slóvakíu 1997 þar sem heimamenn sigruðu, 3:1. Helgi Sigurðsson kom þá Íslandi yfir.
Leikurinn fer fram í Zlaté Moravce, 13 þúsund manna bæ sem er í um klukkutíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni Bratislava þar sem íslenska liðið hefur dvalið síðustu daga. Spilað er á heimavelli samnefnds félags sem leikur í úrvalsdeildinni í Slóvakíu.