Ísland sigraði Slóvakíu, 2:1, á útivelli í vináttulandsleik í knattspyrnu karla sem fram fór í Zlaté Moravce í Slóvakíu. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði fyrra mark Íslands og Eiður Smári Guðjohnsen skoraði síðara markið.
Fylgst var með gangi mála á mbl.is.
90. mín: Tryggvi Guðmundsson kemur inná í stað Emils Hallfreðssonar.
89. mín: Veigar Páll Gunnarsson kemur inná í stað Eiðs Smára Guðjohnsen.
87. mín: 2:1. Marek Mintal þrumar boltanum í netið hjá íslenska landsliðinu eftir vel útfærða sókn heimamanna.
82. mín: 2:0. Eiður Smári skorar af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Stefáni Gíslasyni. Þetta er 20. landsliðsmark Eiðs Smára í 50. landsleik hans. Hornspyrna Stefáns fór yfir markvörð Slóvakíu sem ætlaði sér að ná boltanum og Atli Sveinn Þórarinsson náði að skalla boltann í átt að markinu þar sem Eiður Smári náði að „ýta“ boltanum í markið.
78. mín: Kristján Örn nær að setja pressu á sóknarmann Slóvakíu sem var sloppinn einn í gegnum íslensku vörnina. Skot hans fór hátt yfir markið.
75. mín: Eiður Smári á frábært skot úr aukaspyrnu en markvörður Slóvakíu varði glæsilega.
71. mín: 1:0. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skorar með viðstöðulausu skoti úr vítateignum. Bjarni Ólafur Eiríksson fékk sendingu upp vinstri kantinn og gaf hann fyrir markið þar sem að fjórir íslenskir leikmenn voru til staðar. Gunnar Heiðar þrumaði boltanum í netið með vinstri fæti efst í markhornið. Glæsilegt mark.
Þetta er 5. landsliðsmark Gunnars í 19 landsleikjum.
68. mín: Slóvakar fá tvö fín færi með stuttu millibili. Fyrst varði Kjartan þrumuskot og boltinn fór aftur fyrir endamörk. Úr hosnspyrnunni náðu Slóvakar að skalla boltann rétt framhjá markinu.
66. mín: Ólafur Jóhannesson gerir aðra breytingu á liðinu. Grétar Rafn Steinsson fer af leikvelli og Atli Sveinn Þórarinsson kemur inná. Ragnar Sigurðsson færir sig úr miðverðinum og fer í stöðu hægri bakvarðar.
65. mín: Emil Hallfreðsson átti fína fyrirgjöf sem markvörður Slóvaka missti frá sér. Ólafur Ingi Skúlason var næstum því búinn að ná boltanum en hann féll í markteignum og vildi meina að brotið hefði verið á sér.
63. mín: Theódór Elmar Bjarnason fer af velli en Gunnar Heiðar Þorvaldssson kemur inná í hans stað.
60. mín: Ólafur Ingi Skúlason fær gult spjald fyrir brot. Skömmu síðar varði Kjartan skot frá Robert Vittek sem var í fínu færi í vítateignum.
55. mín: Emil Hallfreðsson á skot að marki úr aukaspyrnu af frekar löngu færi. Boltinn fór yfir markið og var þetta fyrsta markskot íslenska liðsins í leiknum fram til þessa.
50. mín: Slóvakar fengu hornspyrnu frá hægri og boltinn hrökk af einum sóknarmanni Slóvaka í átt að marki. Theódór Elmar Bjarnason bjargaði málunum með því að sparka boltanum í burtu af marklínu.
46. mín. Síðari hálfleikur er byrjaður. Það er kalt í veðri og það falla snjókorn á leikmenn þessa stundina.
Ólafur Jóhannesson gerði engar breytingar á liðinu í upphafi síðari hálfleiks.
45. mín: Fyrri hálfleik er lokið og er staðan 0:0. Slóvakar gerðu breytingu á liði sínu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Robert Vittek kom inn á í stað Marek Sapara sem tognaði á lærvöðva.
40. mín. Slóvakar fá fínt færi og Flip Holosko skallar boltann í stöngina af stuttu færi. Þarna svaf vörn íslenska liðsins á verðinum. Þetta er í annað sinn í leiknum þar sem boltinn fer í stöng eða þverslá íslenska marksins.
35. mín: Varnarleikur íslenska liðsins hefur gengið upp fram að þessu. Slóvakar hafa átt nokkur skot að marki en Íslendingar eiga enn eftir að koma skoti á markið hjá Slóvökum.
30. mín: Marek Sapara tók aukaspyrnu af um 30 metra færi en Kjartan Sturluson markvörður varði skot hans örugglega.
25. mín: Varnarleikur íslenska liðsins er með ágætum en Slóvakar gefa fá færi á sér og hefur íslenska liðið ekki átt eitt skot að marki.
20. mín: Marék Hamsik leikmaður Slóvakíu á skot að marki sem fer framhjá. Skömmu síðar átti Marek Sapara skot að marki af löngu færi.
15. mín: Íslenska liðið hefur ekki náð að skapa sér færi í leiknum fram til þessa.
10. mín: Sóknarmaður Slóvaka, Martin Jakumbo, komst einn í gegnum vörn Íslands og skaut hann boltanum í þverslánna. Í kjölfarið fengu Slóvakar aðra sókn sem endaði með skoti sem Kjartan Sturluson varði.
5. mín: Það hefur fátt markvert gerst á fyrstu fimm mínútum leiksins. Slóvakar eru meira með boltann og íslenska liðið leggur alla áherslu á varnarleikinn.
1. mín: Leikurinn er byrjaður.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu hefur tilkynnt byrjunarliðið og er Kristján Örn Sigurðsson fyrirliði í fyrsta skipti.
Byrjunarliðið er þannig skipað:
Markvörður: Kjartan Sturluson (Val).
Hægri bakvörður: Grétar Rafn Steinsson (Bolton).
Miðverðir: Kristján Örn Sigurðsson (Brann), Ragnar Sigurðsson (IFK Gautaborg).
Vinstri bakvörður: Bjarni Ólafur Eiríksson (Val).
Hægri kantmaður: Theódór Elmar Bjarnason (Lyn).
Varnarmiðjumaður: Aron Einar Gunnarsson (AZ Alkmaar).
Miðjumenn: Stefán Gíslason (Bröndby), Ólafur Ingi Skúlason (Helsingborg).
Vinstri kantmaður: Emil Hallfreðsson (Reggina).
Framherji: Eiður Smári Guðjohnsen (Barcelona).
Varamenn: Stefán Logi Magnússon (KR), Atli Sveinn Þórarinsson (Val), Jónas Guðni Sævarsson (KR), Eggert Gunnþór Jónsson (Hearts), Bjarni Þór Viðarsson (Twente), Tryggvi Guðmundsson (FH), Gunnar Heiðar Þorvaldsson (Vålerenga), Veigar Páll Gunnarsson (Stabæk).
Þetta er þriðji landsleikur Íslands og Slóvakíu. Þjóðirnar mættust á
æfingamóti á Kýpur í febrúar 1998 og þá unnu Slóvakar, 2:1. Bjarki
Gunnlaugsson skoraði mark Íslands. Þá léku liðin vináttuleik í Slóvakíu
1997 þar sem heimamenn sigruðu, 3:1. Helgi Sigurðsson kom þá Íslandi
yfir.