Keflvíkingar komust í kvöld í átta liða úrslitin í deildabikarkeppni karla í knattspyrnu, Lengjubikarnum. Þeir spiluðu þó ekki sjálfir en Fjarðabyggð, eina liðið sem gat skákað þeim, tapaði 3:2 fyrir Fylkismönnum í hörkuleik á gervigrasvelli Fylkis í Árbænum.
Andri Hjörvar Albertsson kom Fjarðabyggð yfir en Allan Dyring jafnaði fyrir Fylki og staðan var 1:1 í hálfleik. David Hannah kom Fylki í 2:1 í byrjujn síðari hálfleiks en um hann miðjan jafnaði Grétar Ómarsson fyrir Austfirðingana. Sigurmark Fylkis var síðan sjálfsmark, fjórum mínútum fyrir leikslok, og Árbæjarliðið vann þar með sinn fyrsta leik í keppninni. Þetta var fyrsti og eini ósigur Fjarðabyggðar í riðlinum en liðið hafði áður m.a. unnið Keflavík og gert jafntefli við HK.
HK og Keflavík eru komin í 8-liða úrslit úr 4. riðli og mæta Val og Breiðabliki en ekki er enn ljóst hverjir mæta hverjum.
ÍA komst í efsta sætið í 3. riðli með því að sigra KA, 2:1, í Akraneshöllinni. Vjekoslav Svadumovic skoraði bæði mörk ÍA en Orri Gústafsson minnkaði muninn fyrir KA seint í leiknum. Guðjón Þórðarson þjálfari ÍA fékk brottvísun undir lokin, sem og Srdjan Tufegdzic, leikmaður KA.
ÍA og Fram eiga mesta möguleika á að fara í 8-liða úrslitin en þó eiga öll liðin í riðlinum enn von um að komast áfram.
Valsmenn tryggðu sér sigur í 1. riðli með því að vinna Selfoss, 4:2, í Egilshöllinni. Dennis Bo Mortensen skoraði 2 marka Vals og Albert B. Ingason eitt, auk þess sem Selfyssingar gerðu sjálfsmark. Sævar Þór Gíslason og Boban Jovic skoruðu fyrir Selfoss, Sævar úr vítaspyrnu eftir að Ásgeir Þór Magnússon, markvörður Vals, var rekinn af velli.
Valur mætir þar með liði númer tvö í 4. riðli sem verður Keflavík eða HK.
Í sama riðli unnu Grindvíkingar sinn fyrsta leik þegar þeir lögðu Víking frá Ólafsvík, 3:1, í Akraneshöllinni. Jósef K. Jósefsson, Andri Steinn Birgisson og Jóhann Helgason skoruðu fyrir Grindavík en Miroslav Pilipovic gerði mark Ólafsvíkinga.
Valur, Breiðablik, FH, KR, HK og Keflavík eru komin í 8-liða úrslitin, þannig að það er aðeins í 3. riðlinum sem óljóst er hverjir fara áfram.