Óvissa um framtíð Ronaldinho

Eiður Smári Guðjohnsen og Ronaldinho skokka saman á æfingu Barcelona.
Eiður Smári Guðjohnsen og Ronaldinho skokka saman á æfingu Barcelona. Reuters

Samkvæmt heimildum AP-fréttastofunnar hafa forráðamenn spænska liðsins Barcelona óskað eftir formlegum viðræðum við umboðsmann Ronaldinho vegna þeirra stöðu sem komin er upp hjá honum og félaginu. Roberto De Assis er umboðsmaður leikmannsins en hann er jafnframt bróðir hans.

Ronaldinho hefur þótt leika langt undir getu í vetur en hann hefur ekki verið í liðinu í undanförnum þremur leikjum og alls hefur hann misst af þrettán leikjum á tímabilinu vegna meiðsla. Orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að De Assis hafi rætt við forráðamenn ítalska liðsins AC Milan en Ronaldinho er samningsbundinn Barcelona fram til ársins 2010.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að De Assis hafi hug á því að láta reyna á reglugerð FIFA sem gerir knattspyrnumönnum sem eru undir 28 ára aldri að rifta samningi þegar þrjú ár eru liðin af honum. Ef það gengur eftir getur Ronaldinho farið frá Barcelona fyrir 1,9 milljarð kr.

Í samningi hans við Barcelona er ákvæði sem gerir honum kleift að fara frá félaginu ef tilboð upp á 125 milljón Evra berst til félagsins sem eru rúmlega 14 milljarðar kr. Ólíklegt er að AC Milan vilji greiða slíka upphæð fyrir leikmanninn. Ronaldinho kom til Barcelona árið 2003 frá franska liðinu Paris Saint-Germain og hann hefur tvívegis fagnað sigri í spænsku deildarkeppninni með Barcelona, 2005 og 2006. Árið 2006 varð Barcelona Evrópumeistari og þar lék Ronaldinho stórt hlutverk.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert