FIFA staðfestir að Stefán geti ekki skipt þrisvar

Stefán Þ. Þórðarson gerði það gott með Norrköping, sem vildi …
Stefán Þ. Þórðarson gerði það gott með Norrköping, sem vildi fá hann aftur. Ljósmynd/Brita Nordholm

Knattspyrnusamband Íslands fékk í dag staðfestingu frá FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, um að ef Stefán Þ. Þórðarson fer frá ÍA til Norrköping geti hann ekki gengið aftur til liðs við Skagamenn fyrr en 1. júlí.

Reglur FIFA heimila ekki að sami leikmaður skipti þrisvar á milli landa á einu ári. Stefán hætti hjá Norrköping  í Svíþjóð í vetur og gekk til liðs við Skagamenn. Sænska liðið óskaði síðan eftir því að fá hann lánaðan frá aprílbyrjun og framað 10. maí, þegar Íslandsmótið hefst.

Þegar félagaskiptin til Svíþjóðar áttu að ganga í gegn benti framkvæmdastjóri KSÍ Skagamönnum á þessa reglu og þeir myndu ekki fá Stefán aftur fyrr en 1. júlí ef hann færi utan núna. Þeir staðfestu því ekki félagaskiptin til Norrköping og biðu þess að FIFA staðfesti þessa túlkun á reglunum.

Þar með bendir flest til þess að ekkert verði af því að Stefán leiki með Norrköping næstu vikurnar en hann hefur þegar misst af tveimur fyrstu leikjum liðsins í sænsku úrvalsdeildinni. Til stóð að hann yrði með í fyrstu átta umferðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert