370 milljóna kr. verðmiði á Ragnari

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt frétt sænska dagblaðsins Aftonbladet í dag hefur Sven Göran Eriksson knattspyrnustjóri Manchester City áhuga á því að fá íslenska landsliðsmanninn Ragnar Sigurðsson til liðsins.

Ragnar er samningsbundinn meistaraliðinu IFJ GAutaborg og er talið að sænska liðið setji 370 milljóna kr. verðmiða á varnarmanninn. Arnór Guðjohnsen er umboðsmaður Ragnars og segir hann í viðtali við Aftonbladet að mörg lið séu að fylgjast með Ragnari. “Það eru lið í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar sem hafa fylgst með Ragnar auk liða frá Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu,” segir Arnór.

Enska úrvalsdeildarliðið Fulham sendi mann á leik liðsins gegn Halmstad á dögunum en þar meiddist Ragnar á öxl en hann verður líklega með liðinu gegn Norrköping í dag.

Tord Grip aðstoðarmaður Eriksson hjá Manchester City segir að Ragnar sé spennandi leikmaður. “Við fylgjumst grannt með. Hann er ungur og spennandi leikmaður,” segir Grip.

Håkan Mild framkvæmdastjóri IFK Gautaborgar segir að ekkert formlegt tilboð hafi borist í Ragnar. “Við höfum fengið ýmsar fyrirspurnir en ekki formlegt tilboð. Það eru þrír eða fjórir leikmenn í okkar liði sem hafa vakið athygli og Ragnar er einn þeirra,” segir Mild.

Sumarið 2007 seldi félagið Marcus Berg til hollenska liðsins Groningen fyrir um 370 milljónir kr. og er talið að Ragnar fari ekki frá félaginu fyrri lægri upphæð.

Zlatan Ibrahimovic er dýrasti leikmaðurinn sem hefur verið seldur frá sænsku félagi en hann fór frá Malmö FF til Ajax árið 2001 fyrir tæplega 1 milljarð kr.

Dýrustu knattspyrnumenn sænsku knattspyrnunnar eru:

1) Zlatan Ibrahimovic, Malmö FF til Ajax 2001 fyrir 1 milljarð kr.

2) Markus Rosenberg, Malmö FF til  Ajax 2005 fyrir 555 milljónir kr.

3) Afonso Alves, Malmö FF til Heerenveen 2006 fyrir 520 milljónir kr.

4) Fredrik Ljungberg, Halmstad til Arsenal 1998 fyrir 493 milljónir kr.

5) Ari da Silva Ferreira, Kalmar til Alkmaar 2007 fyrir 493 milljónir kr.

6) Marcus Berg, IFK Göteborg til Groningen 2007 fyrir 370 milljónir kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert