Roberto de Assis, sem er bróðir knattspyrnumannsins Ronaldinho, segir í viðtali við ítalska íþróttadagblaðið La Gazzetta dello Sport að Brasilíumaðurinn hafi gengið frá munnlegu samkomulagi við ítalska liðið AC Milan. Það eru því allar líkur á því að hann fari þangað frá Barcelona í sumar.
Roberto de Assis er einnig umboðsmaður Ronaldinho og mun samningur hans gilda fram til ársins 2012. Talið er að Ronaldinho muni fá um 930 milljónir kr. á ári í laun eða rétt tæplega 18 milljónir kr. á viku
Adriano Galliani varaforseti AC Milan staðfesti í dag að viðræður við leikmanninn hafi gengið vel og búið sé að ganga frá helstu atriðum í samningnum. Aðeins á eftir að komast að samkomulagi við forráðamenn Barcelona en hann er samningsbundinn Barcelona út árið 2010.