Skagamenn síðastir í 8-liða úrslitin

Vjekoslav Svadumovic skoraði fyrir ÍA í dag og Finnbogi Llorens …
Vjekoslav Svadumovic skoraði fyrir ÍA í dag og Finnbogi Llorens og félagar í HK tryggðu sér sigur í 4. riðli. mbl.is/ÞÖK

Skagamenn urðu í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins. Þeir sigruðu þá Þrótt R., 2:1, í Egilshöllinni, í hreinum úrslitaleik um annað sætið í 3. riðli A-deildarinnar.

Vjekoslav Svadumovic kom ÍA yfir en Þróttarar jöfnuðu með sjálfsmarki frá Dario Cingel. Skagamönnum nægði jafntefli en þeir tryggðu sér sigurinn með marki frá Stefáni Þ. Þórðarsyni, 2:1. Hjörtur Hjartarson, Skagamaðurinn í liði Þróttar, var rekinn af velli í seinni hálfleiknum.

KA vann KS/Leiftur, 7:1, í sama riðli. Steinn Gunnarsson 2, Almarr Ormarsson 2, Norbert Farkas, Arnar Már Guðjónsson og Guðmundur Óli Steingrímsson skoruðu fyrir KA en Gabríel Reynisson fyrir KS/Leiftur sem missti þjálfara sinn Ragnar Hauksson af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik.

Lokastaðan í 3. riðli.

HK sigraði Keflavík, 4:2, í uppgjöri efstu liðanna í 4. riðli og vann þar með riðilinn en Keflavík endaði í öðru sæti. Hólmar Örn Eyjólfsson, Iddi Alkhag, Aaron Palomares og Hörður Magnússon skoruðu fyrir HK, sem komst í 4:1 um miðjan síðari hálfleik, en Þórarinn Kristjánsson og Kenneth Gustafsson fyrir Keflavík. Guðmundur Steinarsson skaut framhjá marki HK úr vítaspyrnu í seinni hálfleiknum.

Staðan í 4. riðli.

Breiðablik vann Víking frá Ólafsvík, 2:0, í 1. riðli og þar skoraði Prince Rajcomar bæði mörkin.

Staðan í 1. riðli.

Þá vann 1. deildarlið Leiknis R. sigur á úrvalsdeildarliði Fjölnis, 4:3, í Egilshöllinni í kvöld en Fjölnir var 3:1 yfir þegar korter var eftir. Vigfús Arnar Jósepsson skoraði tvö marka Leiknis og Einar Örn Einarsson og Elinbergur Sveinsson eitt hvor. Gunnar Már Guðmundsson gerði tvö marka Fjölnis og Ómar Hákonarson eitt.

Staðan í 2. riðli.

Annað kvöld ræðst endanlega hvaða lið mætast í 8-liða úrslitunum næstu helgi en þá leika KR og FH, tvö efstu liðin í 2. riðli. Fyrir þann leik liggur fyrir að þessi lið mætast:

Valur - Keflavík
HK - Breiðablik
Fram - KR/FH
ÍA - FH/KR

FH nægir jafntefli gegn KR til að vinna 2. riðil og mætir þá ÍA en þá mætast KR og Fram. Ef KR-ingar vinna riðilinn mæta þeir ÍA en Fram leikur þá við FH.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert