Liðsmenn spænska knattspyrnuliðsins Levente hafa boðað verkfall dagana 26.-27. apríl vegna ógreiddra launa en félagið hefur ekki staðið í skilum við leikmenn félagsins. Levante á að mæta Recreativo Huleva í spænsku 1. deildinni þann 27. apríl og sem stendur bendir allt til þess að ekkert verði af þeim leik.
„Þessar aðgerðir eru löglegar. Við erum tilbúnir í viðræður en þetta er úrræði sem við leikmenn samþykktum allir að gera. Ef engin laus verður fundin fyrir leikinn á móti Recreativo förum við í verkfall,“ segir Luis Rubiales fyrliði Levante í viðtali við spænska blaðið El Pais.
Mæti Levante ekki til leiks verður liðinu dæmdur 3:0 ósigur en Levante situr eitt og yfirgefið á botni deildarinnar, hefur 22 stig og er sjö stigum á eftir liðinu í næst neðsta sæti. Tapi liðið gegn Getafe á sunnudaginn og Recreativo Huelva leggur Zaragoza að velli fellur Levante.