Fram og ÍA í undanúrslitin

Hjálmar Þórarinsson skoraði annað mark Fram gegn ÍA í dag.
Hjálmar Þórarinsson skoraði annað mark Fram gegn ÍA í dag. mbl.is/ÞÖK

Fram og ÍA tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins. Fram sigraði FH, 2:1, á gervigrasvelli sínum í Safamýrinni og ÍA lagði KR, 3:0, í Kórnum í Kópavogi.

Fram mætir Breiðabliki í undanúrslitunum og ÍA leikur við Val en leikirnir fara fram á fimmtudaginn kemur, sumardaginn fyrsta.

Paul McShane og Hjálmar Þórarinsson komu Frömurum í 2:0 í vorblíðu í Safamýrinni en Matthías Vilhjálmsson minnkaði muninn fyrir FH-inga. Hafnarfjarðarliðið vann deildabikarinn í fyrra en nær ekki að verja þann titil í ár.

Bjarni Guðjónsson kom ÍA yfir gegn KR strax á fyrstu mínútu. Björn Bergmann Sigurðarson bætti við marki undir lok fyrri hálfleiks og KR-ingar gerðu síðan sjálfsmark seint í leiknum, 3:0. Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði KR og Skagamaður, var rekinn af velli á 78. mínútu þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert