Frank Rijkaard þjálfari spænska knattspyrnuliðsins Barcelona sagði í viðtali við sjónvarpsstöð í Katalóníu að Brasilíumaðurinn Ronaldinho væri á förum frá félaginu og er þetta í fyrsta sinn sem Rijkaard segir frá þessu verst geymda leyndarmáli spænsku knattspyrnunnnar.
Síðasti heimaleikur Barcelona á keppnistímabilinu verður gegn Real Mallorca þann 11. Maí og er gert ráð fyrir að það verði síðasti leikur Ronaldinho með félaginu. Ronaldinho hefur átt við meiðsli að stríða vegna tognunar á aftanverðu læri en forráðamenn ítalska liðsins AC Milan hafa reynt að fá hann til liðsins á undanförnum vikum. Samningur Ronaldinho við Barcelona rennur ekki út fyrr en eftir 2 ár og er talið að spænska liðið vilji fá 3,5 milljarða kr. fyrir leikmanninn en AC Milan vill ekki greiða nema um helming þeirrar upphæðar. Barcelona keypti Ronaldinho frá franska liðinu Paris SG árið 2003 fyrir svipaða upphæð og þeir vilja fá frá AC Milan.
Árið 2004 og 2005 var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins en Barcelona fagnaði meistaratitlinum 2004-2005 og í maí árið 2006 sigraði liðið í Meistaradeild Evrópu eftir sigur gegn Arsenal í úrslitaleiknum.