Lið íþróttafélagsins Aspar tryggði sér sigur í sínum styrkleikaflokki á Evrópuleikum Special Olympics í knattspyrnu karla sem lauk í Sviss í gær. Ösp lék fyrir Íslands hönd á mótinu en hinar 23 þátttökuþjóðirnar sendu allar landslið sín til keppni.
Liðunum var skipt í sex riðla eftir styrkleika og lið Aspar fór í þriðja efsta flokkinn ásamt landsliðum Belgíu, Sviss og Finnlands.
Ösp sigraði fyrst lið Belgíu, 8:3, og síðan lið Sviss, einnig 8:3. Loks tapaði Ösp fyrir liði Finnlands, 1:2, eftir gífurlega baráttu þar sem einn leikmaður úr hvoru liði fékk að líta rauða spjaldið.
Í gær voru síðan leiknir úrslitaleikirnir í hverjum styrkleikaflokki fyrir sig. Ösp mætti þá aftur liði Finnlands og hefndi rækilega fyrir sig með því að sigra, 5:1, og stóð þar með uppi sem sigurvegari á mótinu.