,,Ég reikna ekki með að spila meira með á þessu tímabili og það er tvísýnt að ég geti verið á móti Wales í lok mánaðarins,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Barcelona, við Morgunblaðið í gær en Eiður varð að hætta leik eftir aðeins 23 mínútur gegn Real Madrid í fyrrakvöld vegna meiðsla á rist.
,,Læknar liðsins skoðuðu mig í gær og þeir sögðu mér að hvílast sem mest næstu dagana. Ég er búinn að finna fyrir þessum meiðslum frá því fyrir jól en nú kom að þeim tímapunkti að ég gat ekki meira,“ sagði Eiður en tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
Til tíðinda dró hjá Börsungum í gærkvöld þegar Joan Laporta forseti félagsins tilkynnti að Josep Guardiola tæki við liðinu í sumar af Frank Rijkaard. ,,Ég var nú bara frétta af þessu en ég get ekki sagt að þetta komi mér á óvart. Ég veit ekkert hvar ég stend gagnvart honum. Sum blöð hér úti segja að Barcelona ætli að selja mig en önnur segja ekki. Þetta kemur bara í ljós en ef ég fer héðan þá er ekkert sjálfgefið að ég fari aftur til Englands.“