Sævar tryggði Selfossi sigur í Víkinni

Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis fyrir Selfyssinga í Víkinni.
Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis fyrir Selfyssinga í Víkinni. mbl.is/Árni Torfason

Nýliðar Selfoss í 1. deild karla í knattspyrnu unnu í dag óvæntan útisigur á Víkingi R., 3:2, í fyrstu umferð deildarinnar í Víkinni. Lið Víkings þótti sigurstranglegast í deildinni áður en mótið hófst.

Agnar Bragi Magnússon kom Selfossi yfir en Þórhallur Hinriksson og Jón Guðbrandsson svöruðu fyrir Víking sem var 2:1 yfir í hálfleik. Pétur Örn Svansson hjá Víkingi fékk rauða spjaldið um miðjan síðari hálfleik og Selfyssingar nýttu sér það. Sævar Þór Gíslason jafnaði metin, 2:2, og skoraði svo sigurmarkið, 3:2, úr vítaspyrnu sex mínútum fyrir leikslok.

ÍBV vann Leikni R. á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum, 2:0, þar sem Atli Heimisson skoraði bæði mörkin.

Haukar og Víkingur frá Ólafsvík skildu jöfn á Ásvöllum, 1:1. Jón Pétur Pétursson hjá Ólsurum fékk rauða spjaldið snemma í síðari hálfleik, nýkominn inná sem varamaður. Hilmar Geir Eiðsson kom Haukum 1:0 yfir með glæsiskoti eftir aukaspyrnu en þegar þrjár mínútur voru komnar framyfir leiktímann jafnaði Brynjar Víðisson fyrir Víking Ó. úr vítaspyrnu eftir að Atli Jónasson markvörður Hauka braut á Fannari Hilmarssyni.

KA og Fjarðabyggð skildu jöfn, 2:2, í Boganum á Akureyri. Guðmundur Atli Steinþórsson kom Austfirðingum yfir en Arnar Már Guðjónsson og Steinn Gunnarsson svöruðu fyrir KA. Vilberg Jónasson jafnaði, 2:2, og tryggði Fjarðabyggð stig.

Njarðvík og Stjarnan gerðu 0:0 jafntefli í Reykjanesbæ en lokaleikur umferðarinnar, Þór og KS/Leiftur, fer fram í Boganum annað kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert