Rússneskur stuðningsmaður liðsins Zenit St. Pétursborgar var stunginn utan við knattspyrnuleikvanginn í Manchester á Englandi þar sem úrslitaleikur Evrópubikarkeppninnar fór fram í gærkvöldi milli rússneska liðsins og skoska liðsins Glasgow Rangers. Zenit vann leikinn 2:0.
Átök brutust einnig út í miðborg Manchester þegar stór skjár, þar sem leikurinn var sýndur, bilaði. Áhangendur Rangers köstuðu flöskum og dósum á lögreglumenn.
Alls voru 42 handteknir í Manchester í gærkvöldi, þar af 5 vegna árásarinnar á Rússann, sem fluttur var á sjúkrahús en er ekki talinn vera í lífshættu.