Ísland og Wales áttust við í vináttulandsleik í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld og var þetta fyrsti heimaleikur liðsins undir stjórn Ólafs Jóhannessonar á Laugardalsvelli. Ched Evans skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks og var það fyrsta umtalsverða færi Wales í leiknum. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.
Grétar Rafn Steinsson varð í morgun að hætta við þátttöku í leiknum í kvöld vegna meiðsla í hné og Heimir Einarsson frá Akranesi var kallaður inní hópinn í hans stað. Bjarni Ólafur Eiríksson hefur einnig helst úr lestinni vegna meiðsla en Birkir Már Sævarsson kom í hans stað í gær og fer beint í byrjunarliðið.
Eggert Gunnþór Jónsson, hinn 19 ára gamli leikmaður Hearts í Skotlandi, var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti og lék hann við hliðina á hinum 18 ára gamla Aroni Einari Gunnarssyni frá Alkmaar í Hollandi, sem hefur verið þrívegis í byrjunarliði Íslands í fimm leikjum liðsins á þessu ári. Eggert lék sinn fyrsta landsleik í nóvember þegar hann kom inná gegn Dönum á Parken, í fyrsta leik landsliðsins undir stjórn Ólafs Jóhannessonar.
Stefán Þór Þórðarson var í fremstu víglínu og spilaði sinn fyrsta landsleik í níu ár.
Varamenn: Fjalar Þorgeirsson (Fylki), Helgi Valur Daníelsson (Elfsborg), Jónas Guðni Sævarsson (KR), Hannes Þ. Sigurðsson (Sundsvall), Theódór Elmar Bjarnason (Lyn), Arnór Smárason (Heerenveen), Heimir Einarsson (ÍA).