Pétur Pétursson, aðstoðarmaður Ólafs Jóhannessonar landsliðsþjálfara, segir þá vera á ágætri leið í undirbúningi sínum fyrir undankeppni HM sem hefst í haust. Í þeirri hrinu vináttulandsleikja sem að baki er þá séu þeir búnir að skoða í kringum tuttugu til tuttugu og fimm leikmenn, sem hægt verði að kalla á þegar út í alvöruna verður komið. Pétur var þokkalega ánægður með niðurstöðuna gegn Wales á Laugardalsvelli í gær þrátt fyrir 1:0 – tap.
,,Ég held að við séum búnir að skoða marga möguleika. Erum búnir að búa okkur til hugmyndir um eina tuttugu til tuttugu og fimm leikmenn sem hægt er að kalla á hvenær sem er og þeir vita þá hvernig okkar leikskipulag er ef þeir þurfa að spila. Ég held að það eigi að vera auðveldara fyrir þá eftir þessa vináttuleiki. Við náum að sjá marga menn í þessum leikjum og hvað þeir geta. Jafnframt erum við búnir að sýna þeim það skipulag sem við ætlum að spila í undankeppninni sem framundan er. Eins og kom á daginn núna, þegar það duttu fjórir varnarmenn út úr hópnum. Þeir sem voru kallaðir inn í hópinn í þeirra stað vissu hvernig við vildum spila, því þeira voru búnir að taka þátt í verkefnum á Möltu eða annars staðar. Það er því kærkomið að fá þessa vináttuleiki," sagði Pétur.
Nánar í Morgunblaðinu í dag.