Naumur sigur Vals en stórsigur hjá KR

Dóra María Lárusdóttir tryggði Val sigurinn á Aftureldingu.
Dóra María Lárusdóttir tryggði Val sigurinn á Aftureldingu. mbl.is/Carlos Brito

Íslandsmeistarar Vals og KR héldu sigurgöngu sinni áfram í Landsbankadeildinni í knattspyrnu í kvöld.  Valur tók á móti Aftureldingu á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda og fóru Íslandsmeistararnir með sigur af hólmi, 1:0. Dóra María Lárusdóttir skoraði sigurmarkið á 34. mínútu.

Valur sótti nær látlaust að marki Aftureldingar en markvörður Mosfellinga, Brentt Maron átti stórleik og bjargaði liði sínu hvað eftir annað með frábærri markvörslu.

Á Árbæjarvelli unnu KR-ingar góðan sigur á Fylki, 5:1, og hafa Valur og KR bæði 12 stig eftir fjórar umferðir. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði þrjú af mörkum KR-inga í leiknum.

Í Garðabæ skildu Stjarnan og Keflavík jöfn, 2:2. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði bæði mörk Stjörnunnar og Guðrún Ólöf Olsen setti bæði mörkin fyrir Suðurnesjaliðið.

Á Akureyri fögnuðu leikmenn í Þór/KA sigri á Breiðabliki, 2:1. Rakel Hönnudóttir og Ivana Ivanovic skoruðu fyrir norðankonur en Anna Birna Þorvaldsdóttir skoraði mark Blika snemma leiks. Þetta er annar sigurleikur Akureyringa í deildinni í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert