Gísli Gíslason, formaður stjórnar rekstrarfélags Knattspyrnufélags ÍA, hefur gefið út yfirlýsingu vegna fréttar skoska blaðsins Daily Record í morgun um að Guðjón Þórðarson þjálfari ÍA væri að taka við sem knattspyrnustjóri Hearts.
Þar vísar hann því á bug að Guðjón sé á leiðinni til skoska félagsins. Yfirlýsingin er birt á vef ÍA, www.kfia.is/mfl, og er svo hljóðandi:
Broken Hearts
Fótboltinn er margslungin íþrótt og eitt og annað spjallað. Á stundum þarf lítið til að mýfluga verði að úlfalda. Sú ágæta saga hefur nú fengið vængi að hinn ágæti skoski klúbbur, Hearts, vilji fá Guðjón Þórðarson, þjálfara Skagamanna í sínar raðir. Orðrómur þessa efnis var einnig lífseigur í vetur - án þess að fyrir því væri nokkur fótur. Hið sama er upp á teningnum nú - og því er ljúft og skylt að koma því á framfæri að Guðjón Þórðarson er EKKI á leiðinni til Hearts - og eru þeir því „broken hearts" hafi þeir á annað borð haft hug til þess að ræða við Guðjón eða Knattspyrnufélag ÍA.
Ein útgáfan var sú að Guðjón hefði verið í Skotlandi í gær - þriðjudag - og í viðræðum við hina skosku starfsbræður okkar. Hið sanna er að Guðjón naut þess að leika golf með Bjarna syni sínum, Jóni Þór aðstoðarþjálfara og Reyni Leóssyni á Skaganum - og ku hafa staðið sig býsna vel að því er fregnir herma, enda Guðjón vaxandi golfmaður og við bestu aðstæður á Skaganum getur hann ekki annað en sýnt sínar bestu golfhliðar. Þó svo að golf sé að stofni til skosk íþrótt þá dugir það ekki til að tengja þessi mál saman - enda mun Hearts leika skoskan fótbolta en ekki golf. Með öllu er ókunnugt um að Hearts sé á höttunum eftir golfþjálfara.
Að sjálfsögðu er Knattspyrnufélag ÍA það mikill heiður að hafa í þjónustu sinni eftirsóttan starfskraft, sem eftir er tekið. Það segir okkur að vinnubrögð hans og sjónarmið séu e.t.v. eitthvað sem ástæða er til að horfa til og hlusta á.
Þessa dagana er Guðjón að undirbúa lið sitt fyrir verðugt verkefni á sunnudag, en þá leika Skagamenn gegn Val í Landsbankadeildinni. Leikir ÍA og Vals hafa alla tíð verið mikil skemmtun og nú eru bæði liðin í þeirri stöðu að þurfa að hala inn stig. Nú er mál að snúa bökum saman á Skaganum og sækja fram og hirða þau stig sem í boði eru. Strákarnir eru klárir, Guðjón sinnir undirbúningi sínum að vanda og nú er það okkar hinna sem utan vallar stöndum að leggja málinu lið þannig að vel fari á sunnudag.
Gísli Gíslason, formaður stjórnar Rekstrarfélags Knattspyrnufélags ÍA.