Fimm leikir fóru fram í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Stjörnumenn áttu góðan leik þegar þeir unnu Víking frá Ólafsvík, 3:0 í Garðabænum.
Heimamenn áttu töluvert fleiri færi í leiknum og fóru illa með sannkallað dauðafæri á 11. mínútu leiksins þegar Zoran Stojanovic komst í gegnum vörn Víkinga, lék á markvörðinn og gaf á Daníel Laxdal sem þrumaði knettinum yfir autt markið.
Stjarnan skoraði sitt fyrsta mark á 23. mínútu, þegar Þorvaldur Árnason skallaði boltann í netið framhjá Einari Hjörleifssyni í marki Víkings. Einar átti fínann dag í markinu og má segja að hann hafi bjargað því að hans menn töpuðu leiknum ekki stærra. En staðan í leikhléi var 1:0 fyrir Garðbæinga.
Zoran Stojanovic bætti við marki á 47. mínútu. Zoran komst einn gegn markverði Víkinga eftir langa sendingu, lék á markmanninn og skaut, en Einar varði í markinu. Hann hélt hins vegar ekki knettinum og Zoran fylgdi eftir með skalla sem hafnaði í netinu. Það var síðan á 58. mínútu sem síðasta mark leiksins kom. Ellert Hreinsson skallaði þá boltann í mark eftir hornspyrnu. Stjarnan skoraði því öll mörk sín með skalla.
Stjörnumenn hefðu vel getað bætt við fleiri mörkum, en Víkingar áttu ekki mörg færi og nýttu þau færi sem þeir fengu illa. Það var í raun ekki fyrr en skammt var eftir af leiknum sem Bjarni Þórður Halldórsson í marki Garðbæinga þurfti að hafa fyrir því að verja boltann.
„Við mættum vel stemmdir í þennan leik og tókum frumkvæðið strax í byrjun. Eftir annað markið var sigurinn aldrei í hættu og við unnum verðskuldaðan sigur,“ sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar í samtali við mbl.is eftir leikinn.
Eyjamenn áfram á sigurbraut
ÍBV heldur uppteknum hætti, en liðið hefur nú unnið alla sjö leiki sína það sem af er Íslandsmóti. Í dag tóku Eyjamenn á móti KA mönnum á Hásteinsvelli og unnu leikinn, 1:0. Eina mark leiksins kom ekki fyrr en á 66. mínútu. Var það Atli Heimisson sem gerði markið fyrir ÍBV. Atli hefur eins og allt Eyjaliðið leikið gríðarlega vel það sem af er móti.
Haukar sóttu þrjú stig norður
Fimm mörk litu dagsins ljós í leik KS/Leifturs og Hauka í Ólafsfirði. Haukar komust í 3:0 og voru það Ómar Karl Sigurðsson, Goran Lukic og Denis Curic sem gerðu mörkin. Ragnar Hauksson minnkaði svo muninn fyrir heimamenn áður en Ásgeir Þór Ingólfsson gulltryggði sigur Hafnfirðinga með marki sínu. Haukar unnu leikinn því 4:1.
Enn eitt tapið hjá Víkingi R.
Það gengur allt á afturfótunum hjá Víkingi Reykjavík. Víkingar sóttu Leikni R. heim í efra Breiðholtið. Danski varnarmaðurinn Rune Koertz kom Leikni yfir eftir um hálftíma leik og reyndist það vera eina mark leiksins. Úrslitin í Breiðholtinu 1:0 fyrir Leikni.
Þórsarar sigruðu Austfirðinga
Þór Akureyri vann 1:0 sigur á liði Fjarðabyggðar á Akureyrarvelli. Var það Aleksandar Linta sem gerði mark leiksins.
Lokaleikur 7. umferðar verður svo leikinn á morgun þegar Njarðvíkingar taka á móti Selfossi.