Í dag kemur í ljós hvort „stelpurnar okkar“ ná stórum áfanga í baráttu sinni um að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins í Finnlandi. Sigri þær landslið Slóveníu hafa þær tryggt sér sæti í umspilsleikjum og standa betur að vígi í baráttunni um sigur í riðlinum. Það yrði aldeilis flóð á myllu kvennaknattspyrnunnar í landinu og stelpurnar verðskulda góðan stuðning í stúkunum.
Það er nú einu sinni svo með Sigurð Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfara kvennalandsliðsins, að þegar hann bítur eitthvað í sig þá haggast hann ekki. Engu skipti hversu ítrekaðar voru spurningar um líkleg úrslit að hans mati í landsleik Íslands og Slóveníu í dag, Sigurður brosti bara sínu blíðasta og drap tittlinga. Hann fékkst þó til að tjá sig að öðru leyti um leikinn sem framundan er og gott ef hann var ekki þokkalega bjartsýnn.
„Þetta er auðvitað hreinn úrslitaleikur í mínum huga og stelpnanna og við mætum hörkuliði en stefnan liggur ljós fyrir og hún er að leggja þær slóvensku að velli. Markatalan í sjálfu sér skiptir ekki máli svo lengi sem við höfum hærri tölu á skortöflunni og ég hef fulla trú að það markmið náist. Að sama skapi veit ég af reynslu að allt getur gerst í fótbolta. Við töpuðum jú fyrir þeim síðast og þær eru ekkert búnir að gefast upp enda eiga þær fræðilega möguleika að fara lengra eins og við.“
Stúlkurnar eyddu gærdeginum saman í Keflavík en það hafa þær gert áður. Var ein létt æfing tekin þar síðdegis en ekki var þá orðið ljóst hvort Dóra Stefánsdóttir gæti tekið þátt í leiknum í dag. Þrjár aðrar detta úr hópnum fyrir leikinn; María Ágústsdóttir úr KR, Berglind Björk Þorvaldsdóttir úr Breiðablik og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir úr Stjörnunni.
Íslenska liðið er í öðru sæti síns riðils með tólf stig að fimm leikjum loknum. Slóvenska landsliðið kemur okkur næst með níu stig að sex leikjum loknum. Franska landsliðið situr á toppnum með átján stig eftir sjö leiki.
Aðeins efsta þjóðin fer beint í Evrópukeppnina en sú er í öðru sæti lendir fer í sérstaka umspilskeppni um þau lausu sæti sem eftir eru. Þar eru nokkrar sterkar þjóðir um hituna og því vænlegast fyrir stelpurnar okkar að sigra Slóveníu í dag og Grikki á fimmtudaginn kemur en sá leikur fer einnig fram á Laugardalsvellinum og hefst klukkan 16.30.
Sjá nánar ítarlega umfjöllun um landsleik Íslands og Slóveníu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem rætt er við leikmenn og spáð í spilin.