Ísland vann í dag stórsigur á Slóveníu, 5:0, í 3. riðli forkeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrennu fyrir íslenska liðið og Katrín Jónsdóttir bætti við fjórða markinu þegar hálftími lifði leiks. Það var svo nafna hennar Ómarsdóttir sem kórónaði 5:0 sigur Íslands. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti nokkur hættuleg færi fyrir utan mörkin tvö frá Margréti Láru. Slóvenska liðið var hins vegar aldrei líklegt til að skora, stillti upp fimm manna varnarlínu og breytti í engu leikskipulagi sínu eftir mörk Íslands. Fyrsta mark Margrétar Láru kom úr vítaspyrnu á 11. mínútu og hún bætti um betur á 26. mínútu með auðveldu marki eftir undirbúning Hólmfríðar Magnúsdóttur.
Það voru tæplega fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Margrét Lára fullkomnaði þrennuna eftir vel útfærða hornspyrnu íslenska liðsins. Margrét fór skömmu síðar af leikvelli vegna smávægilegra meiðsla, en hún verður þó að öllum líkindum klár í slaginn gegn Grikkjum á fimmtudaginn.
Eftir rúmlega klukkutíma leik bætti fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir við fjórða markinu. Edda Garðarsdóttir tók aukaspyrnu vinstra megin vítateigs og renndi boltanum út á Hólmfríði sem spyrnti að marki og Katrín kom boltanum í netið með skoti af stuttu færi. Katrín var svo nálægt því að bæta við sínu öðru marki þegar hún skallaði boltann í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Katrín Ómarsdóttir skoraði hins vegar fimmta mark Íslands skömmu fyrir leikslok með þrumuskoti úr vítateignum eftir innkast Sifjar Atladóttur.
Sannfærandi 5:0 sigur Íslands er því staðreynd og vonandi að hið sama verði uppi á teningnum á fimmtudaginn í leiknum við Grikkland, kl. 16:30 á Laugardalsvelli.
Byrjunarlið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Ásta Árnadóttir, Katrín Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir - Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir - Margrét Lára Viðarsdóttir.
Varamenn: Sandra Sigurðardóttir, Erla Steina Arnardóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir, Sif Atladóttir, Embla S. Grétarsdóttir, Pála Marie Einarsdóttir, Rakel Hönnudóttir.
Byrjunarlið Slóveníu: Jadranka Knesevic, Anja Milenkovic, Tjasa Tibaut, Tanja Vrabel, Ksenija Povh, Urska Zganec, Andreja Nikl, Mateja Zver, Manja Benak, Alena Milkovic, Snezana Malesevic.
Varamenn: Lucija Mori, Natalija Golob, Adrijana Bogolin, Martina Potrc, Petra Zrnko, Spela Vehar, Ines Spelic.