„Úrslit þessa leiks eru hreinlega frábær,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennaliðs Íslands í knattspyrnu, sem vann stórsigur á Grikkjum á Laugardalsvelli í dag, 7:0, í forkeppni Evrópumótsins.
„Ég var sérstaklega ánægður með að halda markinu hreinu fjórða leikinn í röð, sem íslensku A-landsliði hefur aldrei áður tekist. Einnig var ég ánægður með að liðið skyldi halda áfram allan tímann og bæta við mörkum jafnt og þétt, og það er ekki spurning að áhorfendur skiptu þar miklu máli,“ sagði Sigurður Ragnar, en 5.323 áhorfendur lögðu leið sína á Laugardalsvöll í dag og létu vel í sér heyra.
Með sigrinum er Ísland komið í efsta sæti 3. riðils en lokaleikur liðsins er við Frakka á útivelli í lok september. Íslandi dugar jafntefli þar til að tryggja sér farseðilinn í úrslitakeppnina sem fram fer í Helsinki á næsta ári, en tapi liðið fer það í umspil við lið úr einhverjum hinna riðlanna.
„Núna eigum við alla möguleika í heiminum til að komast alla leið í úrslitakeppni og við munum leggja allt í sölurnar til að ná hagstæðum úrslitum í Frakklandi,“ sagði Sigurður Ragnar.
Nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.