Franski varnarmaðurinn Lilian Thuram er farinn til Paris Saint Germain í heimalandinu en þangað fer hann frítt frá spænska félaginu Barcelona. Thuram er orðinn 36 ára og átti ekki fast sæti í byrjunarliði Börsunga á síðustu leiktíð.
Thuram hóf feril sinn með Mónakó árið 1991 en fluttist til Ítalíu fimm árum síðar. Þar lék hann með Parma við góðan orðstír og varð UEFA-bikarmeistari árið 1999. Tveimur árum síðar hélt hann til Juventus og varð ítalskur meistari með liðinu fjórum sinnum, en tveir af þeim titlum voru síðar strikaðir út þegar Juventus var dæmt fyrir að hafa ólögmæt áhrif á úrslit leikja. Barcelona fékk Thuram svo til sín árið 2006.
Thuram varð heimsmeistari með franska landsliðinu árið 1998, og Evrópumeistari árið 2000. Hann lék sína síðustu landsleiki á Evrópumótinu sem nú stendur yfir, og hefur alls leikið 142 leiki fyrir Frakkland.